199514309-1
top of page

ARFUR OG HEFÐIR

Íslenskar matarhefðir einkenndust af mikilli neyslu dýraafurða og sérkennilegum geymsluaðferðum, í Þingeyjarsveit er það engin undantekning. Íbúar eru þekktir fyrir afbragðs reykingu hvort heldur á fiski eða kjöti. Landbúnaður er svæðinu mikilvægur og jarðhiti er nýttur til að rækta grænmeti í gróðurhúsum.

Sauðkindin

Kindurnar eru hafðar í húsum yfir vetrartímann en á vorin þegar veður leyfir er þeim hleypt út með nýfædd lömb sín. Íslensk lömb ganga því frjáls um fjöll, dali og beitarlönd á íslenskum heiðum og bíta þar villtar jurtir og annan næringarríkan gróður. Það má þekkja íslenska lambakjötið af ljúffenga bragðinu enda velur sauðkindin ávallt það besta, leitar uppi nýgræðinginn, fersku jurtirnar og tæra vatnið og færir sig ofar í fjöllin eftir því sem líður á sumarið, allt þar til þeim er smalað heim á haustin.

Áður en frysting kom til sögunnar var kjöt saltað, reykt og súrsað. Jafnvel hrútspungarnir voru súrsaðir og eru þeir enn vinsæll réttur á þorrablótum.

Landbúnaður er mikill í sveitarfélögunum, sérstaklega Þingeyjarsveit og mikið framboð af ýmiskonar lambakjöti.

Lax og Silungur

Aðgangur býla að silungavötnum og ám hefur ævinlega verið mikil búbót og oft á tíðum lífsspursmál. Spyrji maður fullorðinn Mývetning hvað hafi verið í matinn í æsku er svarið „silungur og aftur silungur.  Siginn, saltaður og reyktur.“ Svörin væru sennilega svipuð hjá nágrönnum við Vestmannsvatn og Laxá. Reykkofar eru mjög algengir við Mývatn og heimamenn sannkallaðir sérfræðingar í reykingum.

 

Það má segja að reyktur silungur á hverabökuðu rúgbrauði sé þjóðarréttur svæðisins. 

reyktu%252520silungur_edited_edited_edit

Hverabakað rúgbrauð

Skortur á korni og eldiviði á öldum áður leiddi til þess að brauðgerð var með allt öðrum hætti en þekkist í dag. Forfeður okkar nýttu sér jarðhitann sem var fyrir hendi til þess að baka rúgbrauð og þá hefð hafa Mývetningar haldið fast í. Hverabökuðu rúgbrauðin eru bökuð í heilan sólahring í holum í Bjarnarflagi og það jafnast fátt á við ylvolgt hverabrauð með þykkri smörklípu. Rúgbrauðið færðu á öllum helstu veitingastöðum og kaffihúsum og mjög líklega við eldhúsborðið hjá gestreisnum heimamönnum. 
 

Nautgripir

Íslenska kúakynið er það sama og var flutt hingað við landnám og er þar af leiðandi skylt norska kúastofninum. Það er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítið eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi. 

Vel hangið nautakjöt, fitusprengt er herramannsmatur og gildir að ofsteikja ekki kjötið svo það nánast bráðni upp í þér. Sumum finnst beljukjötið betra en það fæst ekki sérmerkt beljukjöt í verslunum. Einnig er hægt að fá dýrindis kálfakjöt og er þá gott að þekkja bónda sem ræktar kálfakjöt því það fæst sjaldan í verslunum.

Íslenska kýrin sér landanum fyrir mjólk og öðrum mjólkurvörum. Skyrið er sennilega þekktasta afurðin og einn þjóðlegasti réttur sem hægt er að hugsa sér.

_DSC0157%20(2)_edited.jpg

Grasystingur

Íslendingar þurftu að gera saðsaman mat úr sem minnstu. Gott dæmi um það er grasystingur. Mjólk er hituð hægt og rólega upp að suðu. Þá er súrmjólk bætt út í til að ysta mjólkina (þykkja hana). Soðnum fjallagrösum ásamt sykri er svo bætt út í. Sumstaðar tíðkaðist að setja hrísgrjón með. Úr þessu verður grautur sem lítur ekkert sérstaklega vel út en bragðast þeim mun betur!

Flóuð mjólk með fjallagrösum, þótti allra meina bót.

96401978_10158449578102082_7675668803530

Kæst/úldin egg

Eggjataka var og er mikil við Mývatn og nágrenni en íbúar verkuðu andar- og gæsaegg á afar sérstakan hátt. Eggjunum er komið fyrir í ösku úr reykingu og þar eru þau geymd í eitt til tvö ár. Þetta kallast að kæsa eggin en við kæsingu er maturinn látinn gerjast og rotna. Eftir langa geymslu í öskunni eru eggin soðin. Lyktin þegar þau springa við suðu er öllum ógleymanleg en til þess að þau springi ekki eru þau vafin í álpappír. Eggin minna á gráðost bæði í áferð og á bragðið. Sumir borða stropuð egg og unginn jafnvel orðin fjaðraður og kominn að því að klekjast út.

Kæst egg voru algeng hér áður fyrr en nú á dögum eru þau dregin fram fyrir sérstök tilefni eins og þorrablót.

bottom of page