UM MATARSTÍGINN
Þar til fyrir um 100 árum bjó stór hluti þjóðarinnar í torfbæjum og lífið langt frá því að vera dans á rósum. Íslendingar háðu ófáar baráttur gegn óbeislaðri náttúru, eldgosum, pestum, hungri, kulda og vosbúð. Þjóðin þraukaði með því að stunda landbúnað og sjósókn við einstaklega erfiðar aðstæður og við skort á flestu því sem nútímamaðurinn getur kallað nauðsynjar. Flest matarkyns féll til að sumri til, með útsjónarsemi og kænsku lærðu íslendingar hvernig hægt væri að geyma matinn yfir veturinn. Geymsluaðferðirnar voru sérstakar eins og súrsun, kæsing, loftþurrkun og reyking (sem síðar varð taðreyking vegna skorts á eldiviði). Nýtnin fyrr á öldum var aðdáunarverð. Allt sem mögulega gat satt hungrið var notað. Dæmi um það er beinastrjúgurinn, þar sem öllum tilfallandi beinum var safnað, soðið og geymt í súr þar til þau urðu mjúk undir tönn og hæf til átu.
Matarhefðir eru stór hluti af ímynd lands og þjóðar enda spegla þær menningu okkar og sögu.
Þótt matarmenning hafi breyst hratt á stuttum tíma og alþjóðlegir réttir orðnir áberandi hafa íbúar í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit ekki gleymt uppruna sínum. Þeir bera mikla virðingu fyrir því liðna og halda fast í gamlar hefðir.
Taste Mývatn segir þér frá;
✶Veitingastöðum sem bjóða upp á hráefni úr nærumhverfi.
✶Framleiðendum og hvar er hægt að nálgast vörur beint frá býli.
✶Gömlum matarhefðum sem eru einkennandi fyrir svæðið.